Álverið í Straumsvík hefur minnkað áætlanir sínar um aukna framleiðslu umtalsvert. Þannig stefnir álverið nú að því að auka framleiðslugetu sína úr 190 þúsund tonnum á ári í u.þ.b. 205 þúsund tonn, eða um 8% í stað 20% eins og upphaflega var stefnt að með fjárfestingarverkefni því sem nú stendur yfir. Upphaflega var gert ráð fyrir því að auka framleiðslugetuna í 230 þúsund tonn á ári.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá álverinu en eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um hafa tæknilegir örðugleikar og flókin úrlausnarefni á tæknilegum útfærslum stækkunar álversins valdið miklum og kostnaðarsömum töfum.

Í tilkynningunni sem birt var á vef álversins fyrir stundu kemur fram að viðamiklar uppfærslur á straumleiðurum í kerskálum hafi reynst vandkvæðum bundnar bæði í tæknilegu og öryggislegu tilliti.

„Athuganir sem ráðist var í af þessum sökum leiddu í ljós að ná má fram umtalsverðum hluta framleiðsluaukningarinnar án þess að breyta straumleiðurunum,“ segir í tilkynningunni.

„Með hliðsjón af þeirri niðurstöðu er ekki talið fýsilegt að verja meiri fjármunum en þegar hefur verið gert til að ná fram þeirri framleiðsluaukningu sem upp á vantar með þeim hætti sem til stóð. Leitað verður leiða til að ná henni fram með öðrum hætti en ljóst er að það verður lengri tíma verkefni.“

Þá kemur fram að ákvörðunin hafi ekki áhrif á aðra meginþætti fjárfestingarverkefnisins í Straumsvík, þ.e. að skipta að fullu yfir í framleiðslu á stöngum í stað barra og að auka afkastagetu lofthreinsivirkja.