Á sama tíma og slitastjórnir bankanna voru skipaðar snemma árs 2009 var slitastjórn skipuð yfir Straumi Burðarási. Hún hætti störfum strax í júlí árið 2010 þegar kröfuhafar samþykktu nauðasamning fyrir félagið. Almennir kröfuhafar tóku félagið yfir, breyttu hluta af kröfum sínum í hlutafé og tóku við nýju skuldabréfi útgefnu af félaginu. Slitastjórnir eru hins vegar enn að störfum hjá stóru bönkunum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra talaði fyrir því á dögunum að keyra gömlu bankana í þrot , þ.e. að í stað nauðasamningsferlisins taki við hefðbundin gjaldþrotaskipti. Samkvæmt þeirri kenningu væri hægt að greiða öllum kröfuhöfum út í krónum og svo semja við hvern og einn þeirra um útgöngu. Með því móti væri hægt að sundra þeirri einingu sem verið hefur í kröfuhafahópnum.

Fordæmi er því fyrir því að hægt sé að klára uppgjör fjármálafyrirtækja á stuttum tíma, þótt umfang falls Straums sé vissulega minna en á stóru bönkunum þremur.

Þá má einnig nefna gjaldþrot bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers, sem var mun stærra en íslensku bankanna. Þá náðist samkomulag árið 2011 um slit búsins og eru greiðslur til kröfuhafa langt komnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .