Tap Straums [ STRB ] á fjórða ársfjórðungi í fyrra nam 0,6 milljónum evra en á sama fjórðungi árið 2006 var hagnaður 276,7 milljónir evra, eins og sjá má í meðfylgjandi töflu. Í tilkynningu Straums segir að hagnaðurinn árið 2006 hafi meðal annars markast af um 285 milljóna evra tekjum af hlutabréfaviðskiptum og innleystum og óinnleystum hagnaði á fjárfestingabók. Greiningardeildir bankanna spáðu Straumi að meðaltali 11 milljóna evra hagnaði á fjórðungnum, þannig að afkoman er talsvert undir spám.

Yfir árið í heild skilaði Straumur 162,9 milljóna evra hagnaði, sem er 68% minni hagnaður en árið 2006. Munar þar mestu að afkoma Straums var nærri núlli bæði á þriðja og fjórða ársfjórðungi í fyrra, eftir að hafa verið ágæt á fyrri hluta ársins.

Forstjóri segir árið 2007 hafa verið ár breytinga

Í tilkynningu frá Straumi er haft eftir William Fall, forstjóra, að árið 2007 hafi verið árið breytinga hjá bankanum. „Við færðum út kvíarnar á alþjóðavettvangi og höfum þróast úr íslensku fyrirtæki sem var nær eingöngu með starfsemi á Íslandi yfir í íslenskt fyrirtæki sem hefur haslað sér völl á alþjóðamarkaði með breiðara og dýpra þjónustuframboð og viðskiptamannagrunn en áður. Þrátt fyrir óvenjulega erfiðar markaðsaðstæður á seinni helmingi ársins skiluðum við viðunandi hagnaði yfir árið og bjuggum í árslok að öflugum fjárhag og sterkri lausafjárstöðu. Þóknunartekjur okkar fara vaxandi og starfssvæðið stækkar, sem hvort tveggja er gott vegarnesti á leið okkar að því marki að verða leiðandi fjárfestingabanki í Norður- og Mið-Evrópu,“ segir Fall.

Markmið Straums fyrir 2008

Í tilkynningu Straums eru nefnd fjögur markmið fyrir bankann á þessu ári:

  • Haldið verði áfram að efla tekjustofna og ná fram samlegðaráhrifum milli núverandi afkomusviða.
  • Möguleikar sem felast í stærra starfssvæði verði nýttir til fulls með því að byggja á styrk eQ og Wood, útvíkka starfssvæði Fyrirtækjasviðs og Lánasviðs og halda áfram að samþætta starfseiningar.
  • Umsvif Eignastýringar verði aukin með því að fullnýta starfsemi eQ og þróa starfsemi innan Wood og í starfsstöð Straums í Kaupmannahöfn.
  • Ný starfsemi á vegum Straumur Capital Management (SCM) verði þróuð áfram, þar sem leiddir verða saman nýir og eldri sjóðir sem bankinn mun fjárfesta í ásamt viðskiptavinum sínum.
  • Stjórnun miðist við hóflegan vöxt með hliðsjón af núverandi markaðsaðstæðum.