Stjórn Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf. hefur tekið þá ákvörðun að færa bókhald og semja ársreikning bankans í evrum frá og með 1. janúar 2007. Í þessari ákvörðun felst jafnframt að eigið fé bankans verður fært yfir í evrur, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Ákvörðunin er tekin með langtíma hagsmuni bankans og hluthafa hans í huga. Straumur-Burðarás hefur markað sér þá stefnu að vera leiðandi norrænn fjárfestingabanki, með höfuðstöðvar á Íslandi. Sífellt stærri hluti af eignum og tekjum bankans er í erlendum myntum og hlutfall íslensku krónunnar í viðskiptum bankans minnkar jafnt og þétt.

Bankinn telur að þessi breyting verði til þess að auka áhuga erlendra fjárfesta á Straumi-Burðarási, breikka hluthafahóp bankans og styðja við áframhaldandi alþjóðlegan vöxt.