Straumur ? Burðarás skilaði tæplega 27 milljarða króna hagnaði á síðasta ári. Það verður að teljast ríma algjörlega við þær væntingar sem viðskiptabankarnir gerðu um afkomuna en þeir spáðu að meðaltali 27 milljarða króna hagnaði.

Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að þetta er besta ár í sögu bankans en árið 2005 einkenndist af miklum vexti á öllum sviðum starfseminnar. Eigið fé jókst um 82 milljarða króna á árinu og heildareignir samstæðunnar um 170 milljarða.

Hagnaður bankans eftir skatta á fjórða ársfjórðungi nam 12,6 milljörðum króna til samanburðar við tæplega 500 milljóna króna hagnað árið áður.

Þórður Már Jóhannesson forstjóri bankans segir í tilkynningunni að árið 2005 var bankanum einkar hagfellt. "Bankinn skilaði bestu afkomu sinni frá upphafi, hagnaði upp á 26,7 ma.kr og arðsemi eign fjár var mjög góð eða um 46,5%. Fjárhagslegur styrkleiki bankans er afar góður og er CAD hlutfall 19,82%. Samruni Straums og Burðaráss heppnaðist mjög vel, styrkti og efldi bankann og veitti okkur aðgang að nýjum og spennandi mörkuðum með enn fleiri verkefnum, ekki síst erlendis. Á árinu hefur megin áhersla verið lögð á að styrkja og efla Straum Burðarás sem sérhæfðan fjárfestingabanka með það að markmiði að breikka tekjumyndun bankans. Góð tekjumyndun á öllum sviðum bankans ber vott um að sú uppbygging hefur borið árangur og er umfram væntingar. Bankinn hefur nýverið fengið mat á lánshæfi frá Fitch en það veitir bankanum aukið aðgengi að lánamörkuðum og eflir það starfsemina verulega."