Það kemur til greina að Straumur-Burðarás flytji til Bretlands eða Írlands en þar er 12,5% tekjuskattur til tíu ára, að lágmarki, að því er fram kom í ræðu Björgólfs Thors Björgólfssonar á aðalfundi Straums-Burðaráss í dag.

Björgólfur Thor gagnrýndi ákvörðun fjármálaráðherra um að breyta reglum varðandi uppgjör fjármálafyrirtækja í erlendri mynt, en bankinn hefur lýst yfir áætlunum um að gera upp í evrum

?Ísland hefur verið góður staður til að byggja upp öflugan fjárfestingabanka. Nú þegar Straumur-Burðarás er að komast í þá stöðu að geta raunverulega farið að takast á við kröfur sem gerðar eru til alþjóðlegra fyrirtækja verða skyndileg sinnaskipti hjá stjórnvöldum á Íslandi. Slíkar fyrirvaralausar breytingar knýja fyrirtæki á borð við Straum-Burðarás til að kanna möguleika á að færa félagið til annars lands,? sagði Björgólfur Thor í ræðu sinni.

Hann minntist á í þessu samhengi að forsætisráðherra kynnti í október síðastliðnum skýrslu um hvernig koma mætti á fót öflugri alþjóðlegri fjármálastarfsemi á Íslandi.

?Þar kom fram að gagnsæi í reglum og jákvæð viðhorf til alþjóðlegra markaða og fjárfesta skipti miklu máli við uppbyggingu á slíkri starfsemi og kom einnig fram að grundvallaratriði fyrir því að varanlegur árangur náist er að lög og reglur sæti ekki fyrirvaralitlum grundvallarbreytingum - eins og þar segir orðrétt. Því skýtur það skökku við að fjármálaráðherra skuli í febrúar, eða eingöngu þremur mánuðum síðar, fyrirvaralaust breyta og þrengja reglur varðandi uppgjör fjármálafyrirtækja í alþjóðlegri mynt og setja án rökstuðnings skilyrði sem erfitt getur reynst að uppfylla. Svo virðist sem stefnu stjórnvalda um aukið frelsi í viðskiptum og minni afskipti ríkisvaldsins til sextán ára sé skyndilega snúið í gagnstæða átt, - án allra skýringa,? sagði Björgólfur Thor.

Kostir Bretlands og Írlands er meðal annars að þar ?fæst meira traust á starfsumhverfi bankans þar sem bankasagan er í þessum löndum lengri og viðurkenndari, reynslumeira fjármálaeftirlit og síðast en ekki síst alþjóðlegur gjaldmiðill,? sagði Björgólfur Thor.