Straumur Burðarás hefur fest kaup á 7,04% í ungverska fjarskiptafyrirtækinu HTTC, sem er skráð á markaði í kauphöllinni í New York. Kaupverðið er 1,2 milljarður íslenskra króna en markaðsverðmæti HTTC er 16,8 milljarðar íslenskra króna. Danska fjarskiptafyrirtækið TDC er stærsti hluthafinn í HTTC með 63% hlut.

Í samtali við Viðskiptablaðið sagði Friðrk Jóhannsson, forstjóri Straums, að þessum kaupum hafi nú verið flaggað þar sem hlutur Straums fór yfir 5% mörkin en segir að þetta sé vissulega ekki stór fjárfesting en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um þessa málið.

Í samtali við vefútgáfu danska blaðsins Berlingske Tidende segir Jesper Johansen, framkvæmdastjóri útibús Straums í Kaupmannahöfn, að Straumur líti á þetta sem gott fjárfestingartækifæri.

Johansen segir að þetta sé ekki skammtímafjárfesting hjá Straumi og telur þetta góða fjárfestingu þar sem HTTC sé fjárhagslega vel statt, með góða markaðsstöðu og hafi skilað góðum hagnaði.

Hin nýráðni forstjóri TDC, Jens Aldner, hefur gefið það út að fyrirtæki hans hyggist selja allar eignir sínar utan Norðurlandanna og nú telja danskir fjölmiðlar að Straumur hyggi á auknar fjárfestingar í HTTC en TDC á 63% í HTTC eins og áður var getið.