*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 10. febrúar 2006 12:59

Straumur-Burðarás sækir 7,8 milljarða til bandarískra einkafjárfesta

Ritstjórn

Straumur-Burðarás fjárfestingabanki hefur falið þýsku bönkunum Dresdner Kleinwort Wasserstein og Deutsche Bank að sækja 125 milljónir Bandaríkjadala (7,85 milljarðar íslenskra króna) til bandarískra einkafjárfesta, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Straumur er þriðji íslenski bankinn til að fara þessa ákveðnu fjármögnunarleið, en áður sóttu Kaupþing banki og Íslandsbanki fjármagn á Bandaríkjamarkað til einkafjárfesta. Kaupþing banki seldi skuldabréf fyrir 165 milljónir Bandaríkjadali í desember, sem greiða 205 punkta yfir bandarísk ríkisskuldabréf og eru til tíu ára. Íslandsbanki sótti 210 milljónir dala á markaðinn stuttu áður og eru bréfin frá fimm til sjö ára og greiða 85-100 punkta yfir bandarísk ríkisskuldabréf.

Engar upplýsingar um vaxtakjör Straums-Burðaráss voru fáanlegar þegar Viðskiptablaðið fór í prentun. Hins vegar er Straumur-Burðarás með lægra lánshæfis mat en hinir viðskiptabankarnir þrír og telja sérfræðingar líklegt að félagið muni þurfa að greiða hærri vexti fyrir vikið.

Staumur-Burðarás fékk nýlega lánshæfismat frá matsfyrirtækinu Fitch Ratings, sem gefur bankanum einkunina BBB-mínus. Íslandsbanki og Kaupþing banki eru með lánshæfismatið A1 hjá Moody's Investors Service, sem samsvarar einkuninni BBB-plús hjá Fitch Ratings. Landsbankinn er mitt á milli með lánshæfismatið A2, eða BBB.

Straumur-Burðarás hefur einnig fjármagnað sig með sambankalánum, en eftir nýlegt lánshæfismat er líklegt að bankinn feti í fótspor hinna íslensku bankanna og sæki fjármagn á opna alþjóðaskuldabréfamarkaði.

Íslensku bankarnir hafa verið gagnrýndir fyrir að vera of háðir íslenska hlutabréfamarkaðnum, að hlutabréfaeign þeirra sé of mikill hluti af heildareignum, og að þeir fjármagni sig aðallega með skuldabréfaútboðum og að innlán séu ekki nægilega mikil. Hins vegar benda sérfræðingar á að íslensku bankarnir séu í auknum mæli að afla sér tekna með fjárfestingabankaþjónustu og ráðgjöf. Þjónustutekjur bankanna hafa aukist með útrásinni og áæltað er að slíkar tekjur verði meiri á næstu árum. Straumur-Burðarás er eini sérhæfði íslenski fjárfestingabankinn.