Í viðtali við Dow Jones fréttastofuna segir Friðrik Jóhannsson, forstjóri Straums-Burðaráss, að hann vilji gjarnan byggja upp starfsemi bankans í Bretlandi og að hann útiloki ekki frekari starfsemi á Norðurlöndunum.

Straumur-Burðarás keypti nýverið 50% hlut í breska fjárfestingarfyrirtækinu Stamford Partners, sem veitir þjónustu í matvæla- og drykkjargeiranum.

Friðrik segir að ef bankinn eigi að vaxa, verði það að gerast erlendis og bendir á að Straumur-Burðarás muni opna útibú í London fyrir lok árs. Friðrik segir einnig að líklegt sé að með tímanum muni bankinn kaupa eftirstandandi hlut í Standford.

Friðrik segir að nauðsynlegt að bankinn hafi umsvif í Bretland og bætir við að bankinn myndi einnig gjarnan vilja auka umsvif sín á Norðurlöndunum, segir í fréttinni, en Straumur-Burðarás rekur þegar útibú í Kaupmannahöfn.

Friðrik segir að mörg tækifæri séu framundan, matvæla- og drykkjarmarkaðurinn sé í miklum vexti og bætti við að hugsanlegt væri að Stanford myndi auka starfsemi sína út í aðrar hliðar viðskiptalífsins.

FL Group er stærsti hluthafi í Straumi-Burðarás, með um 21% hlut, en Friðrik segir að FL Group styðji viðskiptaáætlun bankans og líki vel hvernig starfsemin hefur þróast.