Straumur hefur gengið frá kaupum á félaginu Gunner ehf. sem á 64,3% hlut í Íslenskri eignastýringu ehf., sem aftur á 21,83% hlut í Íslenskum verðbréfum. Óbeinn eignarhlutur Straums í ÍV samsvarar því um 14% eftir kaupin. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur verið unnið að frágangi viðskiptanna um nokkurt skeið, en hluthöfum ÍV var greint frá viðskiptunum í gær. Eigendur Gunner voru þeir Sævar Helgason og Ásgeir Már Ásgeirsson.

Í síðustu viku var gengið frá sölu á 27,5% eignarhlut í ÍV, en kaupendur voru MP banki, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Garðar K. Vilhjálmsson. Hlutur MP í kaupunum nam 10% eignarhlut í ÍV. Sama dag var greint frá því að Straumur hefði keypt 19,5% hlut í MP banka.

Kaup Straums á bréfunum í MP banka og Gunner eru gerð með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins.