Stjórn Straums Fjárfestingarbanka samþykkti á fundi sínum í gær, 20. mars 2005, að auka hlutafé félagsins um 700 m.kr. að nafnverði og bjóða fagfjárfestum til kaups í lokuðu útboði á genginu 10,0. Stjórn hefur heimild samkvæmt samþykktum til þess að auka hlutafé bankans um allt að 1.500 m.kr. að nafnverði, en sú heimild lækkar niður í 800 m.kr. í kjölfar þessa útboðs.

Lágmarkshlutur hvers fagfjárfestis eru 50 m.kr. að söluverði og er gjalddagi greiðslu 29. mars 2005. Markaðsviðskipti bankans munu annast framkvæmd útboðsins sem mun standa til kl. 10.00 mánudaginn 21. mars 2005. Í kjölfar hækkunarinnar mun heildarhlutafé bankans verða 6.100 m.kr. að nafnverði.

Tilgangur sölu hlutafjárins er að styrkja eiginfjárstöðu Straums Fjárfestingarbanka og auka þar með vaxtarmöguleika bankans.