Straumur hefur ráðið til starfa þá Nicklas Granath og Anders Rahm á svið Eigin viðskipta í Stokkhólmi í Svíþjóð. Þeir munu starfa að fjárfestingum í norrænum og austur-evrópskum hlutabréfum undir stjórn Fredriks Sjöstrands og Flemmings Bendsens, framkvæmdastjóra eigin viðskipta að því er kemur fram í frétt Straums.

Fredrik Sjöstrand segir í tilkynningu: ?Við bjóðum þá Nicklas og Anders hjartanlega velkomna í hópinn. Markmið Straums er að verða leiðandi fjárfestingabanki í Norður- og Mið-Evrópu og efling starfseminnar í Svíþjóð er lykilatriði í áframhaldandi árangri okkar á svæðinu. Við höfum metnaðarfull áform um að færa út kvíarnar í Stokkhólmi og nú hefur okkur bæst mjög öflugur liðsauki með þeim Nicklas og Anders.?

Nicklas Granath var yfirmaður hlutabréfaviðskipta hjá Handelsbanken Capital Markets og þar áður hjá norræna fjárfestingabankanum Carnegie. Anders Rahm starfaði á sviði hlutabréfaviðskipta hjá Carnegie.

Straumur er stærsti fjárfestingabankinn hér á landi og sjöunda stærsta félagið sem skráð er í Kauphöll Íslands. Markaðsvirði bankans er 2,21 milljarðar evra og námu heildareignir hans 6,828 milljónum evra í lok annars ársfjórðungs 2007. Langtímalánshæfiseinkunn Straums hjá matsfyrirtækinu Fitch Ratings er BBB-. Með innri og ytri vexti hefur bankinn sett á fót starfsstöðvar í tíu löndum, þar á meðal Bretlandi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Tékklandi. Hjá honum starfa nú um 450 manns. Straumur stefnir að því að verða leiðandi fjárfestingabanki í Norður- og Mið-Evrópu.