Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti í dag kauptilboð Straums fjárfestingabanka í höfuðstöðvar fyrirtækisins að Bæjarhálsi og Réttarhálsi. Samþykkið er veitt með fyrirvara um staðfestingu eigenda, að því er segir í tilkynningu OR.

Þar kemur einnig fram að Straumur, sem gerir tilboðið fyrir hönd óstofnað félags, hafi boðið 5,1 milljarð króna fyrir eignirnar sem þýðir að söluhagnaður OR, þ.e. mismunur söluverðs og bókfærðs verðmætis, verður um 600 milljónir króna. Batnar lausafjárstaða OR sem því nemur. Salan sé því mikilvægur þáttur í framvindu Plansins, aðgerðaáætlunar Orkuveitunnar og eigenda.

Straumur gerir tilboðið með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og endanlega fjármögnun, en í samþykkt stjórnar OR felst að Orkuveitan muni leigja húseignirnar til 20 ára og hafa rétt til að kaupa þær aftur eftir 10 ár sem og við lok leigutímans. Endanlegur sölusamningur verður lagður fyrir stjórn Orkuveitunnar.

Í tilkynningunni er haft eftir Bjarna Bjarnasyni, forstjóra OR, að þrátt fyrir að sala stærri eigna sé flókið viðfangsefni sjái stjórn OR fram á að geta lokið tveimur slíkum samningum, þ.e. um  höfuðstöðvarnar og Perluna. Samningurinn sé Orkuveitunni fjárhagslega hagstæður og það sé mikilvægt að fyrirtækið eigi þess kost að kaupa eignina aftur þyki það skynsamlegt þegar að kemur.