Straumur fjárfestingabanki hagnaðist um 225 milljónir króna árið 2014. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu sem Straumur sendi frá sér nú síðdegis.

Arðsemi eigin fjár var 12% og heildareignir námu 19 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall var 29% og eigið fé 2.486 milljónir króna, samkvæmt tilkynningunni.

Þar segir jafnframt: „Laust fé var 6.681 milljónir króna eða rúmlega þriðjungur af heildareignum. Það er til marks um gagnsæi og öryggi í efnahagi Straums að eiginfjárkrafa vegna áhættu í efnahagsreikningi bankans er einungis um 219 milljónir króna eða um 13% af eiginfjárgrunni."

Viðburðaríkt ár

Jakob Ásmundsson, forstjóri Straums, kveðst ánægður með seinasta rekstrarár, sem hafi bæði verið viðburðaríkt og farsælt. „Meirihluti í bankanum var seldur til nýrra hluthafa á miðju ári og afkoman á síðari hluta ársins skilaði hluthöfum góðri arðsemi. Straumur keypti á árinu ráðandi hlut í Íslenskum verðbréfum og 20% hlut í MP banka. Undir lok ársins var hlutafé bankans aukið til að styðja við áframhaldandi ytri vöxt. Við horfum því full tilhlökkunar fram á veginn," segir hann jafnframt.