*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 24. nóvember 2011 10:16

Straumur á hausaveiðum í Arion og Íslandsbanka

Tveir fara frá Arion til Straums og fjórir aðrir frá Íslandsbanka.

Ritstjórn

 

Miðlararnir Steingrímur Arnar Finnsson og Hannes Árdal hafa hætt störfum hjá Arion banka og munu hefja störf hjá Straumi innan tíðar. Þá hefur Viðskiptablaðið heimildir fyrir því að allt að fjórir starfsmenn hjá Íslandsbanka séu að færa sig um set og á leiðinni í Straum. Þar á meðal er Halla Hjartardóttir sem sagði upp sem forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka fyrir skemmstu. Bæði fólk úr miðlun og fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka mun fylgja henni yfir til Straums.

Með þessum „hausaveiðum“ er Straumur að byggja upp starfsemi sína í miðlun verðbréfa og fyrirtækjaráðgjöf. Ekki er langt síðan Pétur Einarsson tók við forstjórastöðu Straums og stutt er síðan Styrmir Þór Bragason var ráðinn framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá Straumi. Styrmir var áður forstjóri MP banka.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins mun Haraldur Þórðarson, sem veitti meðal annars fjárstýringu Exista forstöðu en hefur starfað sjálfstætt undanfarið, bætast í nýjan hóp starfsmanna Straums.

Stikkorð: Straumur Íslandsbanki Arion