Að sögn Williams Fall, forstjóra Straums-Burðarás Fjárfestingabanka, hefur bankinn gert ítarlega skoðun á skráningu annars staðar en félagið er nú skráð í Kauphöll Íslands. "Við höfum skoðað það mjög ítarlega og þurfum að gera það því félög eru ekki að veita hluthöfum sínum réttmæta arðsemi með því að vera skráð hér eins og staðan er," segir hann í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.

"Að skrá félagið ytra er ekki auðvelt, sérstaklega ekki núna, en við munum halda áfram að skoða þau mál.“

William segir ennfremur að hann hafi áhyggjur af stöðu Kauphallarinnar: "Ég hef áhyggjur af henni, og staðan hefur neikvæð áhrif á okkur sem fyrirtæki. Verðmat fyrirtækisins er brenglað og á ekki við nein rök að styðjast ef horft er til raunverulegs verðmætis bankans. Bréfin eru alltof lág og það hjálpar ekki að hlutabréfin eru skráð í krónum en félagið gerir upp í evrum. Annað vandamál er að við erum staðsett í landi þar sem enginn áhugi er á hlutabréfakaupum eins og staðan er núna. Við þurfum að koma þessu í eðlilegt horf og ég sé það ekki fyrir mér gerast í náinni framtíð. Svo er líka spurning hvort nægur áhugi sé fyrir því að endurreisa Kauphöllina, og ég tel svo ekki vera á næstunni. Það eru önnur stærri vandamál sem þarf að takast á við fyrst.“

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.