Fjárfestingabankinn Straumur Burðarás íhugar að skrá félagið annars staðar en á Íslandi, þá líklegast í Lundúnum eða Stokkhólmi.

Þetta kemur fram á vef breska blaðsins Financial Times (FT) í kvöld og er haft eftir William Fall, forstjóra Straums en Fall greindi einmitt frá þessu í viðtali við Viðskiptablaðið síðastliðinn fimmtudag .

Í samtali við FT í kvöld segir Fall að bankinn muni eiga auðveldara með að ná fram markmiðum sínum í samstarfi við breskan eða sænskan aðila.

„Við horfum til Stokkhólms og Lundúna þar sem stofnanir eru traustar og regluverkið í lagi,“ segir Fall í samtali við FT. Þá segir hann viðskipti með félagið ekki samræmast gengi þess auk þess sem lítið fjárflæði sé á Íslandi.

Þá kemur fram í frétt FT að flutningur Straums væri í takt við alþjóðamarkmið bankans og muni í leiðinni fjarlægja hann frá fjármálakreppunni á Íslandi.

Þá segir ónafngreindur viðmælandi FT, sem sagður er kunnugur málefnum Straums, að flutningur bankans frá Íslandi muni auka möguleika bankans á fjármögnun.

Þá hefur blaðið eftir Björgólfi Thor Björgólfssyni, stærsta hluthafa Straums, að það hafi lengi staðið til að flytja bankann frá landinu og gera hann að alþjóðlegum banka.

Sjá frétt FT.