Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hefur keypt 50% hlut í Wood & Company, leiðandi, fjárfestingarbanka í Mið- og Austur-Evrópu, og hefur kauprétt að eftirstandandi hlutum eigi síðar en fyrri hluta árs 2011, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Kaupverðið er trúnaðarmál.

"Kaupin endurspegla þann ásetning bankans að byggja upp öflugri starfsemi á alþjóðavettvangi og að auka hlutfall þóknunartekna. Sterkur efnahagsreikningur Straums mun styðja við áframhaldandi sókn Wood & Company. Þá mun viðskiptalíkan Straums gera Wood & Company kleift að auka enn úrval þeirrar þjónustu og vöruframboðs sem viðskiptavinum fyrirtækisins stendur til boða í dag," segir í tilkynningunni.

William Fall, forstjóri Straums segir Wood & Company sérlega vel staðsett á þessum markaði og ákjósanlegan aðila til að veita aðgang að Mið- og Austur-Evrópu. ?Fyrirtækið hefur skilað miklum hagnaði undanfarin tíu ár og er einstakt á svæðinu. Kaupin eru hluti af fyrirætlunum okkar um vöxt á alþjóðamarkaði. Með þeim eflum við einnig
þóknunartekjur bankans fyrir fjárfestingarbankaþjónustu, en það er eitt af markmiðum okkar. Kaupin á Wood & Company koma í kjölfar kaupa okkar á eQ Bank í Finnlandi nú nýverið. Þau auka framboð Straums, efla þjónustu bankans og stækka markaðssvæði hans. Við bjóðum viðskiptavinum nú aðgang að stærra landsvæði, nýjum vörum og þjónustu, auk þess að styrkja enn rekstrargrundvöll bankans. Þessir þættir eru kjarninn í heildarstefnu okkar," segir Fall.

Wood & Company er leiðandi sjálfstæður fjárfestingarbanki í Mið- og Austur-Evrópu sem býður upp á allar gerðir verðbréfaviðskipta, fjárfestingarbankaþjónustu og fyrirtækjaráðgjöf. Hann býður m.a. þjónustu við einkavæðingu stórra stofnana, hlutafjárútboð, markaðsviðskipti, samruna og yfirtökur, fjárfestingarbankaþjónustu og fyrirtækjaráðgjöf til innlendra og erlendra fyrirtækja sem og til innlendra útgefenda og stofnana.

Wood & Company er með höfuðstöðvar í Prag og starfsemi í Slóvakíu og Póllandi. Starfsmenn eru 70. Fyrirtækið er meðal annars aðili að kauphöllunum í Prag, Vín, Frankfurt, Varsjá, Búkarest, Ljúblíana og Búdapest.

Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins á Íslandi og Seðlabanka Tékklands. Greitt er fyrir kaupin með reiðufé, auk þess sem verulegur hluti kaupverðs er greiddur með hlutabréfum í Straumi. Kaupverð er ekki gefið upp enda hefur það óveruleg fjárhagsleg áhrif, segir í tilkynningunni.