Langstærstur hluti hluthafa og rétthafa finnska bankans eQ hefur samþykkt yfirtökutilboð Straums í allt hlutfé og kauprétti bankans, segir í fréttatilkynningu.

Samþykktartímabil yfirtökutilboðsins hófst þann 11. júní 2007 og lauk þann 3. júlí 2007. Straumur fer nú með ríflega 95% hlutafjár og atkvæðisréttar í eQ. Straumur hyggst eignast alla útgefna og eftirstandandi hluti í eQ og mun nú hefja aðgerðir til innköllunar á hlutum minnihlutaeigenda samkvæmt ákvæðum finnskra hlutafélagalaga, segir í tilkynningunni.

eQ er finnskur fjárfestingarbanki með alhliða þjónustu, en meðal viðskiptavina bankans eru einkafjárfestar, stofnanir og fyrirtæki. eQ veitir fjárfestingarbankaþjónustu, sem er aðlöguð þörfum kröfuharðra viðskiptavina. Eignarhald hluthafa í eQ Group er að andvirði 64 milljónir evra og eiginfjárhlutfall er 14 af hundraði. Fjöldi starfsmanna eQ Group er 170 og fjöldi viðskiptavina er um 48.000.