Íslensk eignastýring ehf., sem er í meirihlutaeigu Straums fjárfestingabanka hf., hefur gengið frá kaupum á 27,51% hlut í Íslenskum verðbréfum hf. Fyrir jól nýtti Íslensk eignastýring sér forkaupsrétt að hlutum Íslandsbanka í Íslenskum verðbréfum og  þar með hefur Íslensk eignastýring tryggt sér 58,14% hlut í Íslenskum verðbréfum hf.

Í aðdraganda kaupanna sótti Straumur fjárfestingabanki um heimild til að fara með yfir 50% virkan eignarhlut í Íslenskum verðbréfum og hefur Fjármálaeftirlitið samþykkt umsóknina.

Í tilkynningu frá Straumi vegna kaupanna er haft eftir Jakob Ásmundssyni, forstjóra Straums, að mikil tækifæri séu fólgin í þessum áfanga. Íslensk verðbréf sé spennandi félag og nú hafi óvissu um framtíðareignarhald á félaginu verið eytt.

Líkt og greint var frá á VB.is jók Straumur í gær hlutafé sitt um 500 milljónir króna. Fjórir stærstu eigendur bankans keyptu 65% hlutanna og starfsmenn keyptu 35%.