Straumur tapaði 146 milljónum evra eftir skatta á 3. fjórðungi ársins. Fyrir skatta nam tapið 169 milljónum evra. Þar af var tap af fjárfestingum 74 milljónir evra. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu bankans fyrir 3. fjórðung. Vegna markaðsaðstæðna eru einnig birtar tölur fyrir október og þar kemur fram að bankinn tapaði 151 milljón evra eftir skatta í október og 175 milljónum evra fyrir skatta. Samanlagt tap bankans eftir skatta í júlí til október er því tæpar 300 milljónir evra.

Eiginfjárhlutfallið lækkaði í október

Eiginfjárhlutfall Straums (CAD) var 22,5% í lok september, en lögboðið lágmark er 8%. Í lok október hafði það lækkað niður í 17,6%.

Heildareignir Straums í lok október námu 4,4 milljörðum evra og lækkuðu um 16% í mánuðinum.

Mikil virðisrýrnun

Virðisrýrnun á þriðja ársfjórðungi nam 107 milljónum evra og í október var hún 245 milljónir evra. Samtals er virðisrýrnunin þessa fjóra mánuði því rúmar 350 milljónir evra. Í tilkynningu Straums segir að þetta sé vegna einstakra atburða á alþjóðlegum mörkuðum og íslenskum mörkuðum.

Í tilkynningu frá Straumi segir að lausafjárstaðan sé viðunandi miðað við erfiðar markaðsaðstæður. Bankinn vinni að því að tryggja lausafjárstöðu sína til meðallangs tíma.

Endurfjármögnun desembergjalddaga á lokastigi

Í tilkynningu Straums er eftirfarandi haft eftir William Fall, forstjóra bankans:

„Markaðsumhverfi á fjármálamörkuðum hefur einkennst af vaxandi erfiðleikum síðan í júní 2007. Fjármálakreppan jókst á þriðja ársfjórðungi 2008 og í upphafi fjórða ársfjórðungs urðum við vitni að miklu hruni, einkum á Íslandi. Í lok september og í byrjun október tók Fjármálaeftirlitið við stjórn þriggja stærstu viðskiptabankanna á Íslandi. Fyrir vikið lokaðist gjaldeyrismarkaðurinn svotil alveg. Afleiðingar þessara atburða voru þær að alþjóðasamfélagið missti trú á íslenska fjármálakerfið. Þessi þróun hefur haft neikvæð áhrif á flestar fjármálastofnanir, þar á meðal Straum. Engu að síður þraukaði bankinn í þessu fárviðri og við erum nú í þeirri aðstöðu að geta horft fram á veginn.

Áherslan á þriðja ársfjórðungi, og einkum frá byrjun október 2008, hefur verið að draga úr efnahagsreikningi okkar og áhættu, verja eigið fé, bæta lausafjárstöðu okkar og efla tengslin við mótaðila okkar. Bankinn hefur einnig nýtt sér tækifæri til að efla frekar tekjusköpunarhæfni sína með því að ráða hluta af fyrrum starfsmönnum Teather í London til að efla stöðu Fyrirtækjasviðs og Markaðsviðskipta á breska markaðnum. Eiginfjárstaða okkar er áfram sterk með eiginfjárhlutfall 22.5%. Bankinn hefur sambankalán á gjalddaga í desember endurfjármögnun er á lokastigi.

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður er ég þess fullviss að endurskoðun viðskiptalíkans Straums og sterk eiginfjárstaða bankans geri bankanum kleift að þróa viðskipti sín í samræmi við yfirlýsta stefnu sína sem er áhersla á tekjur af þjónustu við viðskiptamenn, dreifa tekjuleiðum og draga úr áhættu á efnahagsreikningi.“

Nánar verður fjallað um uppgjör Straums eftir kynningarfund bankans sem hefst kl. 9:00.