Straumur Burðarás hefur rift samkomulagi um kaup Straums á meirihluta af erlendri starfsemi Landsbankans á sviði fyrirtækjaráðgjafar og verðbréfamiðlunar fyrir 380 milljónir evra, með fyrirvara um samþykki eftirlitsaðila í viðkomandi löndum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Straum.

Eins og tilkynnt var 1. október síðastliðinn skrifuðu Straumur og Landsbankinn undir samkomulag kaupin. Um var að ræða 100% hlut í Landsbanki Securities (UK) Limited og Landsbanki Kepler og 84% hlut Landsbankans í Merrion Landsbanki.

„Ljóst er orðið að Landsbankinn er ekki í aðstöðu til að standa við ákvæði kaupsamningsins sem gerður var,“ segir í tilkynningu Straums og vísað er til þeirra atburða sem átt hafa sér stað með málefni Landsbankans bæði hér á landi og í Bretlandi í vikunni.

„Af þessum sökum hefur Straumur í dag tilkynnt Landsbankanum um riftun á kaupsamningnum.“