Straumur Burðarás hefur selt öll bréf sín í sænska netleikjafélaginu Net Entertainment til stjórnenda félagsins en félagið átti tæplega 30% hlut í félaginu.

Dow Jones fréttaveitan greinir frá þessu en þar kemur fram að bókfært eignarhald Straums í félaginu hafi verið um 25 milljónir evra í lok júní s.l. Það á samkvæmt Dow Jones að vera um 2% af öllum fjárfestingum Straums og um 7,6% af eignarhlutum félagins í skráðum fyrirtækjum.

Dow Jones hefur eftir Benedikt Stefánssyni hjá Landsbankanum að hlutur Straums hafi verið seldur á markaðsvirði.

„Straumur ætti að hafa fengið um 31 milljón evra með sölunni en það er yfir bókfærðu eignarhaldi Straums við síðasta uppgjör,“ segir Benedikt.

Benedikt segir söluna skynsama þar sem Straumur hafi að undanförnu verið að einbeita sér frekar að annars konar fjárfestingum.

Straumur keypti hlut sinn í Net Entertainment, sem þá hét  Cherryforetagen AB í júli árið 2005. Sex mánuðum síðar átti Straumur tæp 27% hlut í félaginu samkvæmt upplýsingum frá Dow Jones.

Net Entertainment var árið 2006 skipt upp í þrjú félög sem öll einbeita sér að netveðmálaleikjum. Þau eru CherryCasino, Betsson AB og Net Entertainment.

„Við fengum einfaldlega gott tilboð í félagið með stuttum fyrirvara,“ segir Gunnar Brundin, framkvæmdastjóri á skrifstofu Straums í Stokkhólmi í samtali við Dow Jones fréttaveituna en bætir því að hann telji þetta hafa verið skynsama fjárfestingu.

„Við ætlum okkur ekki að eiga minna en 30% í minni félögum til langs tíma litið,“ segir Gunnar.

Gengi félagins hefur hækkað um 54% síðustu sex mánuði á Nordic Growth Market og er gengi félagsins nú 27 sænskar krónur á hvern hlut. Á sama tíma hefur gengi Straums í Kauphöll Íslands lækkað um 24% á sama tíma.