Straumur Fjárfestingarbanki hf. hefur selt allan eignarhlut sinn í Tryggingamiðstöðinni hf. (TM). Um er að ræða sölu á samtals 353.132.108 hlutum að nafnverði sem eru samtals 37,9% af heildarhlutafé TM. Viðskiptin fóru fram á genginu 22,8 og eru kaupendur Sund ehf. sem keypti 186.479.234 hluti (20% af heildahlutafé TM), Fjárfestingarfélag sparisjóðanna hf. sem keypti 120.033.066 hluti (12,9% af heildarhlutafé TM) og Höfðaborg ehf. sem keypti 46.619.808 hluti (5% af heildarhlutafé TM). Fjárfestingarfélag sparisjóðanna hf. og Sund ehf. munu þurfa að fá samþykki Fjármálaeftirlitsins til þess að fara með virkan eignarhlut í TM en framsal hluta og greiðsla kaupverðs mun engu að síður fara fram óháð því samþykki.

Markaðsviðskipti Straums Fjárfestingarbanka hf. hafði milligöngu um viðskiptin í samstarfi við Fjárfestingarfélag sparisjóðanna hf.