Hagnaður Straums árið 2012 nam 203 milljónum króna. Árið í fyrra var fyrsta heila starfsár Straums fjárfestingabanka og samanburður við fyrri ár því ekki fyllilega réttmætur, en árið 2011 skilaði Straumur tapi upp á tæpa 121 milljón króna. Heildareignir bankans í lok árs 2012 námu 14.994 milljónum króna og eigið fé nam 1.314 milljónum króna. Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að eiginfjárhlutfall hans sé 35% og arðsemi eigin fjár nam 18%.

Heildartekjur ársins námu 1.335 milljónum króna og námu þóknanatekjur um 85% af þeirri fjárhæð, eða um 1.152 milljónum króna. Þá komu meira en 80% af tekjum bankans frá ótengdum aðilum, þ.e. aðilum öðrum en móðurfélaginu ALMC og félögum því tengdu.

Á árinu jók Straumur markaðshlutdeild sína í veltu með verðbréf í Kauphöll Íslands. Hlutdeild hans í veltu með skuldabréf nam 11% á árinu og hlutdeild í hlutabréfaveltu nam 9%. Um 85% af eignum bankans eru innstæður hjá Seðlabanka Íslands eða skuldabréf útgefin af ríkissjóði eða Íbúðalánasjóði og segir í tilkynningunni að í árslok 2012 var lausafjáráhætta hans þannig að hægt sé að breyta 98% af eignum í reiðufé innan einnar viku.

Pétur Einarsson, forstjóri Straums, segir í tilkynningunni að afkoma ársins sem og áhugi sem hann finni fyrir frá viðskiptavinum og fagfjárfestum ýti undir þá skoðun hans að Straumur sé á réttri leið með að ná markmiði sínu að verða leiðandi fjárfestingabanki á Íslandi.