Að sögn Georgs Andersens, upplýsingafulltrúa Straums, hefur engin ákvörðun verið tekin um flutning höfuðstöðva bankans en það er til umræðu. Um leið stefnir bankinn að því að auka þjónustuframboð sitt hér á landi.

Georg sagði að flutningur höfuðstöðvanna hefði verið til umræðu síðustu 18 mánuði, við ýmis tækifæri og þá bæði hjá Björgólfi Thor Björgólfssyni stjórnarformanni og William Fall forstjóra. ,,Það er því ekki nýtt af nálinni að við séum að skoða það. Það er athyglisvert að við séum að skoða þetta núna vegna þess að það er ekki auðvelt að reka alþjóðlegan fjárfestingabanka frá Íslandi,” sagði Georg Andersen upplýsingafulltrúi Straums.

,,Það er ekkert í hendi og það hefur ekkert verið ákveði. Ef hins vegar myndi verða af þessu í framtíðinni myndi það þýða að höfuðstöðvar bankans myndu skipta um heimilsfang. Það væri í rauninni eina breytingin. Starfsemi Straums myndi haldast nánast óbreytt á Íslandi og við myndum halda áfram að bjóða þá þjónustu sem við höfum boðið okkar viðskiptavinum hér. Ef eitthvað er þá erum við að auka við þá þjónustu eins og mun koma í ljós á næstu vikum. Við erum að snarauka þjónustuframboð okkar.”

Georg sagði að um væri að ræða formsbreytingu ef af flutningunum verður. Hann sagði að eins og staðan væri í dag hefði íslenskur banki ekki aðgang að lánsfé erlendis. Í öðru lagi væru gjaldeyrishöftin að velda þeim erfiðleikum. ,,Það er mjög erfitt að standa skila á því hér sem við erum að gera erlendis. Bara það ef við tökum upp á því að borga lán eða laun verður það til þess að við komumst í kastljós fjölmiðla.”

Hjá Straumi vinna 600 manns og þar af 100 á Íslandi. Í London vinna 160 manns, 200 í Helsingi, 40 í Kaupmannahöfn og 140 í Prag. Framkvæmdastjórn fyrirtækisins er mjög dreifð.

Aðspurður um það hvort félagið yrði áfram skráð hér á landi sagði Georg að það væri ekki ákveðið.