Straumur hefur lagt grunn að starfsemi á sviði eignastýringar í Danmörku með því að ráða þrjá starfsmenn til bankans, þau Jens Honoré, Klaus Hector Kjær og Lotte Halse. Jens og Klaus verða forstöðumenn eignastýringar en Lotte forstöðumaður stoðsviðs eignastýringar.

Í tilkynningu vegna eignastýringarinnar segir: "Sterkar svæðisskrifstofur sem hafa á að skipa fyrsta flokks sérfræðingum eru lykillinn að því markmiði okkar að verða leiðandi fjárfestingabanki í Norður- og Mið-Evrópu," segir Oscar Crohn, forstöðumaður starfsstöðvar Straums í Danmörku. "Straumur starfrækir nú þegar fyrirtækjasvið, lánasvið, fjárstýringu og eigin viðskipti hér í Danmörku og nú bætist við sérfræðiþjónusta á sviði eignastýringar. Það er okkur mikið fagnaðarefni að hafa fengið þetta úrvalsfólk til liðs við okkur og ég hlakka til að byggja upp með þeim öfluga starfsemi á þessu sviði."

Öflugir liðsmenn

Jens Honoré (37 ára) er með MSc gráðu í hagfræði og CFA-viðurkenningu sem fjármálasérfræðingur (Chartered Financial Analyst). Jens starfaði áður hjá Nordea Investment Management sem forstöðumaður fagfjárfestasviðs í Danmörku. Áður en hann hóf störf hjá Nordea árið 1999 sinnti hann fjárfestingum hjá Gudme Raaschou.

Klaus Hector Kjær (40 ára) er með MSc gráðu í hagfræði og stjórnun. Hann var forstöðumaður eignastýringar hjá Gudme Raaschou frá 2004 en á að baki ellefu ára starfsferil hjá fyrirtækinu. Þar áður var hann hjá Formuepleje Asset Management.

Lotte Halse (45 ára) hefur undanfarin 17 ár verið forstöðumaður stoðsviðs eignastýringar hjá Gudme Raaschou. Hún hefur hlotið þjálfun sem bankastarfsmaður og var áður hjá Jyske Bank.

Jens, Klaus og Lotte hófu störf hjá Straumi 1. febrúar síðastliðinn.