Straumur fjárfestingarbanki hefur takmarkaða endurfjármögnunarþörf og er ekki mikið skuldsettur, samkvæmt tilkynningu sem bankinn sendi frá sér síðdegis í gær.

Í tilkynningunni kemur fram að eiginfjárhlutfall bankans sé ríflega 20% og þó svo að lausafjárstaðan hefði mátt vera betri, fari hún nú stöðugt batnandi.

Vegna undangenginna atburða hefur Straumur lagt áherslu á að minnka efnahagsreikning sinn en um leið nýtt þau tækifæri sem gefast til þess að hlúa að tekjuskapandi hluta rekstursins, t.d með því að ráða til sín fyrrverandi starfsmenn Teathers í London og styrkja þannig stöðu sína í Bretlandi.

Kapp verður nú lagt á að dreifa tekjustofnum og draga úr áhættu í rekstri, að því er fram kemur í tilkynningunni