Straumur fjárfestingabanki skilaði 1,4 milljóna evra tapi eftir skatta á öðrum ársfjórðungi. Hagnaður dregst mikið saman milli ársfjórðunga og ennþá meira saman milli ára. Tap fyrir skatta á fjórðungnum nam 20,2 milljónum evra.

Meðalspá greiningaraðila hljóðaði upp 2,1 milljónar hagnað. Þó ber að nefna að spár greiningaraðila um afkomu Straums spanaði allt frá 5,6 milljóna evra tapi til 8,9 milljóna hagnaðar.

Hreinar rekstrartekjur bankans nema 15,3 milljónum evra, sem er tæplega 77% samdráttur frá fyrsta fjórðungi ársins.

Efnahagur Straums hefur jafnframt minnkað talsvert á fjórðungnum, eða um 22,5%. Eiginfjárhlutfall bankans í lok uppgjörstímabilsins er 25,4%, þar af er eiginfjárþáttur A 23,2%.

Þrátt fyrir að rekstrartekjur stórminnki minnkar rekstrarkostnaður einnig, og lækkar um 22,5% á tímabilinu.

Tekjur af þjónustu við viðskiptamenn jukust talsvert milli ára, og munar þar mestu um auknar vaxtatekjur.

Í tilkynningu er haft eftir William Fall, forstjóra Straums, að uppgjörið sé áminning um hversu mikilvægt hafi verið að fjölga tekjustofnum bankans. Mikið tap hafi orðið af ákveðnum fjárfestingum á tímabilinu.