Straumur hefur tekið yfir dönsku húsgagnakeðjuna Biva og sett nýtt hlutafé inn í félagið. Þetta kemur fram í frétt business.dk þar sem segir að Biva Møbler Odense  hafi komist í greiðsluþrot í lok síðasta mánaðar, en með eigendaskiptunum skýrist framtíðin hjá 350 starfsmönnum. Kreppan í heiminum og minni neysla Dana mun þó verða til þess að starfsfólki fækki, að því er segir í fréttinni.

Straumur tekur félagið yfir af Odin Equity Partners og Dania Capital sem hafa átt húsgagnakeðjuna frá árinu 2006 í gegnum Biva Holding.

„Við förum inn í Biva og leggjum fram nýtt fé því að Biva er í grunninn traust fyrirtæki með góða markaðsstöðu, duglegt starfsfólk og sterka stjórnendur. Við sjáum mikla möguleika í Biva og Straumur vill gjarna styðja og vera hluti af slíku fyrirtæki,“ er haft eftir framkvæmdastjóra Straums í Danmörku, Oscar Crohn.