Straumur fjárfestingarbanki, fyrir hönd ALMC (gamla Straums-Burðaráss) var mótaðili í gjaldeyrisviðskiptum þar sem Deutsche Bank fékk að fara úr landi með um fimmtán milljarða króna í gjaldeyri fyrr á þessu ári. Þetta herma heimildir Viðskiptablaðsins. Aðkoma Straums var meðal þess sem gerði það að verkum að viðskiptin höfðu ekki áhrif á gengi krónunnar þar sem innstreymi gjaldeyris var jafnt eða svipað útstreyminu.

Pétur Einarsson, forstjóri Straums, vildi ekki tjá sig um málið þegar Viðskiptablaðið leitaði til hans. „No comment,“ sagði Pétur.

Morgunblaðið greindi frá því á miðvikudag í síðustu viku að Deutsche Bank og einn annar erlendur aðili hefðu fengið að skipta alls um 18 milljörðum króna í gjaldeyri og fara með úr landi. Í kjölfar fréttarinnar sendi Seðlabanki Íslands frá sér tilkynningu og sagði fréttina í flestum atriðum ranga. Engar undanþágur sem geti haft alvarleg áhrif á stöðugleika krónunnar hafi verið veittar til kaupa á gjaldeyri fyrir krónur til að flytja úr landi.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.