Að sögn Williams Fall, forstjóra Straums-Burðarás Fjárfestingabanka, er enn unnið að stofnun sérstaks endurreisnarsjóðs á vegum bankans.

„Við erum á fullu í þeim undirbúningi, en hann hefur tekið meiri tíma en ég bjóst við. Það er að hluta til vegna þess að erlendir fjárfestar, sem hafa virkilegan áhuga á góðum fjárfestingakostum, hafa áhyggjur af því hvernig gjaldmiðlamálin verða, hvort Íslandi taki upp evruna o.s.frv.," sagði William í samtali við Viðskiptablaðið í vikunni.

William benti á að það skapaði vanda að það væru tvö gengi í gangi, innanlands og utanlands. Og gengið utan Íslands gefur til kynna að krónan þurfi að veikjast meira.

,,Svo eru einnig fullt af ákvörðunum sem á eftir að taka og það hefur áhrif á allt. Við getum ekki hafið endurreisnarstarfið og fengið inn fjárfesta fyrr en búið er að greiða úr öllum þeim flækjum sem eru í gangi. Það verður að taka þessar ákvarðanir, og það fljótt. En fjárfestingasjóðurinn er nauðsynlegur og ég tel að hann geti myndað brú á milli Íslands og alþjóðlegra fjárfesta á ný, og við finnum fyrir áhuga utan frá. Óvissan er gríðarleg, og hluti af reiði almennings beinist að þeirri óvissu. Það veit enginn hvernig greitt verður úr vandamálum bankanna, heimilanna, fyrirtækja o.s.frv. Slík óvissa tefur allt endurreisnarstarf.“

Sjá nánar í síðasta Viðskiptablaði,