Straumur var rekinn með 575 milljóna evra tapi á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Fjórðunginn á undan nam tap bankans 146 milljónum evra. Árið í heild var tapið 699 milljónir evra en árið 2007 var Straumur rekinn með 163 milljóna evra hagnaði. Virðisrýrnun lána, viðskiptakrafna og óefnislegra eigna setur mjög mark sitt á uppgjör bankans að þessu sinni.

Þetta eru afkomutölur sem Straumur hefur samkvæmt bráðabirgðareikningi og hafa ekki verið samþykktar af stjórn. Ársreikningur verður lagður fyrir stjórn og birtur í vikunni sem hefst 9. mars.

Mikil virðisrýrnun

Virðisrýrnun óefnislegra eigna á fjórða ársfjórðungi nam 328 milljónum evra, en engin slík virðisrýrnun fór fram á fyrsta til þriðja fjórðungi ársins. Þá nam virðisrýrnun lána og viðskiptakrafna 291 milljón evra á fjórða fjórðungi og hafði numið 107 milljónum evra á þriðja fjórðungi og samtals 414 milljónum evra yfir árið. Virðisrýrnun lána, viðskiptakrafna og óefnislegra eigna nam samtals 619 milljónum evra á fjórða ársfjórðungi og 741 milljón evra yfir árið í heild. Þessir liðir voru óverulegir á fyrsta og öðrum fjórðungi ársins.