*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Erlent 2. febrúar 2015 19:17

Strauss-Kahn og vændishringurinn

Stjórnmálamenn, dómarar, lögreglumenn, lögmenn og blaðamenn í kynsvalli með fyrrverandi forstjóra AGS.

Ritstjórn

Dominique Strauss-Kahn, fyrrverandi forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), hefur verið ákærður fyrir hórmang. Réttarhöld í máli gegn honum og þrettán öðrum hófust í frönsku borginni Lille í dag.

Strauss-Kahn er ákærður fyrir að hafa tekið þátt í starfsemi vændishrings, sem var með rekstur í Norður-Frakklandi, Brussel í Belgíu og New York og Washington í Bandaríkjunum. Hann er meðal annars sakaður um að hafa skipað undirmönnum sínum að útvega vændiskonur fyrir kynsvall (e. sex parties).

Í Frakklandi er ekki ólöglegt að vera með vændiskonu en hins vegar er ólöglegt að stunda hórmang. Strauss-Kahn hefur viðurkennt að hafa tekið þátt í þessum kynlífs-samkomum en harðneitað því að hafa stundað hórmang. Við réttarhöldin kom fram að stjórnmálamenn, dómarar, lögreglumenn, lögmenn og blaðamenn hafi tekið þátt í þessum samkomum.

Réttarhöldin hafa vakið upp siðferðilegar spurningar um kynlíf í Frakklandi sem og spurningar um einkalíf opinberra persóna og að hvaða marki það eigi að vera einkamál þeirra.

Strauss-Kahn var um tíma orðaður við forsetaframboð í Frakklandi en í dag er óhætt að fullyrða að orðspor hans sé í rúst. Hann hraktist úr starfi forstjóra AGS fyrir fjórum árum. Það var eftir að herbergisþerna í New York sakaði hann um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi. Fallið var frá ákæru í því máli.

Undanfarin misseri hefur Strauss-Kahn unnið fyrir sér sem ráðgjafi og fyrirlesari. Hann hefur meðal annars veitt stórfyrirtækjum í Rússlandi, Afríku og Rómönsku-Ameríku ráðgjöf.

Nánar er fjallað um réttarhöldin á vefsíðu New York Times.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is