Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, situr nú í varðhaldi í hinu alræmda tukthúsi á Riker's Island. Strauss-Kahn hefur sem kunnugt er verið ákærður fyrir kynferðisárás á þernu á lúxushóteli í New York. Hann kom fyrir dómara í gær og var úrskurðaður í áframhaldandi varðhald. Þá var honum neitað um frelsi gegn tryggingu enda gilda ekki framsalssamningar á milli Frakklands og Bandaríkjanna.

Greint er frá því á vef BBC að Strauss-Kahn muni verða gætt allan sólarhringinn í fangelsinu og er það öryggis hans sjálfs vegna en í Riker's Island sitja margir hættulegir glæpamenn og meðlimir í glæpagengjum.

Réttarhöld yfir Strauss-Kahn hefjast á föstudag.