Dómari í New York úrskurðaði í gær að Dominique Strauss-Kahn, fyrrum framkvæmdastjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, skyldi látinn laus gegn greiðslu einnar milljónar dollara í tryggingu auk 5 milljóna dollara ábyrgðar. Strauss-Kahn verður í stofufangelsi heima hjá dóttur sinni í New York-borg auk þess sem hann mun bera senditæki á sér og verður undir eftirliti vopnaðs varðar sem hann mun þurfa að greiða fyrir úr eigin vasa. Þá ber Strauss-Kahn að afhenda yfirvöldum vegabréf sitt.

Saksóknari lagðist samkvæmt fréttum erlendra miðla gegn því að Strauss-Kahn yrði látinn laus þar sem hann hafi hvata til þess að flýja og sé það auðugur að hann geti sest að og lifað í allsnægtum fjarri valdsviðs dómstóla New York-borgar. Auður Strauss-Kahn er metinn á um tvær milljónir dala.