Réttarhöld yfir Dominique Strauss-Kahn, hinum franska fyrrum framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hefjast í dag en Strauss-Kahn hefur sem kunnugt er verið sakaður um kynferðisárás gegn hótelþernu á Sofitel lúxushótelinu í New York. Benjamin Brafman, lögmaður Strauss-Kahn, hefur látið hafa eftir sér að skjólstæðingur hans muni lýsa yfir sakleysi sínu.

Búist er við því að réttarhöldin gætu dregist á langinn en málið hefur vakið mikla athygli. Mikill fjöldi fólks mætti í dómsal þegar ákvörðun var tekin um tryggingu í málinu og hefur Bloomberg eftir talsmanni dómstóla New York-borgar að ekki hafi fleiri áhugasamir sést í dómssal síðan réttað var yfir Mark David Chapman, morðingja John Lennon.