Streita ríkir á millibankamarkaði í aðdraganda loka þessa ársfjórðungs. Bankar og fjármálastofnanir reyna að styrkja efnahagsreikning sinn á meðan að seðlabankar reyna að liðka til á millibankamarkaði.

Millibankavextir á pund og evrur fóru í sitt hæsta gildi í ár þrátt fyrir að seðlabankar hafi reynt að liðka til með því að veita fé út á markaðinn. Er þetta rakið til þess að bankar og fjármálastofnanir hamstra fé til þess að styrkja efnahagsreikning sinn áður en fyrsti ársfjórðungur rennur sitt skeið á enda. Það veldur áhyggjum að slík streita sé enn að myndast á mörkuðum en hins vegar binda menn vonir við 200 milljarða Bandaríkjadala útboð bandaríska seðlabankans á skammtímalánum.

Samkvæmt Dow Jones-fréttaveitunni segir að ásókn fjármálastofnanna eftir lausafé hafi gert það að verkum að Evrópski seðlabankinn gaf til kynna í gær að hann myndi bregðast við lausafjárþurrð á millibankamarkaði. Í tilkynningu frá bankanum í gær kom fram að forráðamenn hans hafi tekið eftir þurrð á millibankamarkaði í aðdraganda loka fjórðungsins að bankinn fylgdist grannt með gangi mála. Tilkynningin var fyrirvaralaus og hefur slíkt verið fyrirboði skyndilegs útboðs á daglánum. Á miðvikudag lýstu forráðamenn Englandsbanka því yfir að þeir myndu grípa inn í gang mála til þess að liðka fyrir á millibankamarkaði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .