*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Innlent 25. ágúst 2021 10:01

Strengur keypti fyrir 559 milljónir

Strengur Holding nýtti kauprétti til að kaupa hlutabréf í Kaldalón 36% undir núverandi markaðsverði fasteignafélagsins.

Ritstjórn
Jón Skaftason og Gunnar Henrik B. Gunnarsson, stjórnarmenn Kaldalóns.
Aðsend mynd

Strengur Holding ehf. keypti í gær hlutabréf í fasteignafélaginu Kaldalón fyrir tæplega 559 milljónir króna. Um er að ræða nýtingu og uppgjör kaupréttar við þriðja aðila en hlutirnir eru í framvirkum samningum, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Viðskiptin fór fram á genginu 1,133 krónum á hlut en alls keypti Strengur um 493,3 milljónir hluti. Hlutabréfaverð Kaldalóns er í dag 1,78 krónur á hlut og því var kaupverðið 36% undir markaðsverði hlutabréfanna.

Strengur var fyrir viðskiptin stærsti hluthafi Kaldalóns með 22,3% hlut. Strengur á nú um 1.542 milljónir hluta í fasteignafélaginu, eða um 32,8% af hlutafé Kaldalóns. Miðað við núverandi gengi Kaldalóns nemur markaðsvirði eignarhlutarins yfir 2,7 milljörðum króna. Jón Skaftason, framkvæmdastjóri Strengs sem og fjárfestinga hjá 365, er stjórnarformaður Kaldalóns.

Strengur er í eigu þriggja eignarhaldsfélaga, 365, RES II og RPF. Félagið er einnig ráðandi hluthafi Skeljungs. Jón Ásgeir Jóhannesson er stjórnarformaður Strengs og Skeljungs.

Í sömu tilkynningu kemur fram að Investar ehf., sem er í eigu hjónanna Gunnars Henriks B. Gunnarssyni og Lovísu Ólafsdóttur, hafi selt sléttar 100 milljónir hluti á genginu 1,77 krónur á hlut í gær. Investar seldi því hlutabréf fyrir 177 milljónir í gær. Hjónin eiga eftir viðskiptin 119,6 milljónir hluti, að markaðsvirði 212,9 milljónir miðað við núverandi hlutabréfagengi Kaldalóns. Gunnar Hendrik situr í stjórn Kaldalóns.