Streymisveitur í eigu Walt Disney eru komnar með samtals 221 milljón greiðandi áskrifenda og hafa nú tekið fram úr Netflix á þessum mælikvarða. Disney+, sem hóf göngu sín í lok árs 2019, bætti við sig 14,4 milljónum áskrifenda á síðasta ársfjórðungi, sem lauk 2. júlí 2022. Financial Times greinir frá.

Disney færði þó niður spá um fjölda áskrifenda hjá Disney+ þar sem streymisveitan missti nýlega rétt á að sýna frá indversku úrvalsdeildinni í krikket. Fyrirtækið gerir nú ráð fyrir að áskrifendur verði um 245 milljónir talsins fyrir árið 2024 en áður hafði það gert ráð fyrir að þeir yrðu allt að 260 milljónir á fyrir lok næsta árs.

Samstæðan gerir þó áfram ráð fyrir að Disney+ verði orðin arðbær árið 2024. Streymisveitur í eigu Walt Disney, þar á meðal Hulu og ESPN+, töpuðu 1,1 milljarði dala á fjórðungnum eða sem nemur nærri 1.500 milljörðum króna. Fyrirtækið hyggst bregðast við rekstrarniðurstöðunni með verðhækkunum í Bandaríkjunum í ár.

Það hefur verið nokkur titringur í skemmtanaiðnaðinum eftir að Netflix greindi frá því í apríl að áskrifendum streymisveitunnar hefði fækkað í fyrsta sinn í áratug. Þá tilkynnti fjölmiðlafyrirtækið Warner Bros Discovery fyrr í þessum mánuði að það hygðist leggja minni áherslu á áskriftarþjónustu á streymisveitum. Disney og Netflix hafa bæði greint frá áformum um að bæta við auglýsingum á streymisveitum sínum í von um að laða að kostnaðarmeðvitaða neytendur.