Í reglugerð sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur samið og taka átti upphaflega gildi 1. júní næstkomandi, er gerð sú krafa að strikamerki á drykkjarvöruumbúðum verði lóðrétt en ekki lárétt.

Ráðuneytið hefur frestað gildistöku reglugerðarinnar því aðeins vika átti að líða frá því að aðilar í EES ríkjunum, þar sem hún er nú í kynningu, eiga að skila athugasemdum þangað til hún átti að taka gildi.

Samtök evrópskra áfengisframleiðanda mótmælir

Að mati Félags atvinnurekenda skapar þetta algerlega órökstudda viðskiptahindrun og andmælir félagið breytingunni. Segja þeir samtök evrópskra áfengisframleiðanda hafa gert það sama.

Bendir félagið á að sambærilegar kröfur séu ekki að finna í Evróputilskipun eða Evrópureglugerð. Heldur sé um séríslenska kröfu að ræða sem skapi viðskiptahindrun á markaði, því ólíklegt sé að innflytjendur fáist til að sérmerkja vörur hingað til lands vegna smæðar markaðarins.

Innflytjendurnir yrðu að endurmerkja

Yrðu þá innflytjendurnir að endurmerkja allar flöskur með ærnum tilkostnaði og vinnu, sem ljóst sé að myndi lenda á endanum á neytandanum. „Að okkar mati er afar gagnrýnivert að ráðuneytið hefur ekki rökstutt með neinum hætti þörfina á þessari nýju kröfu,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.

„Krafa sem þessi er hvergi annars staðar í gildi á EES-svæðinu. Hún er gríðarlega íþyngjandi fyrir íslensk fyrirtæki, skapar viðskiptahindrun og mun að öllum líkindum hafa í för með sér hærra vöruverð fyrir neytendur. Þetta er enn eitt dæmið um að stjórnsýslan setur reglur út í loftið án þess að velta fyrir sér eitt augnablik áhrifunum á atvinnulífið.“