Ekki er sjálfsagt að fyrirtæki fái að fresta skattgreiðslum eða hljóta ríkisábyrgð á lánum samkvæmt þeim aðgerðum sem stjórnvöld kynntu í gær til að mæta efnahagsafleiðingum af útbreiðslu kórónuveirunnar.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að ekki yrði öllum fyrirtækjum bjargað og ljós væri að einhver yrðu gjaldþrota. „Fyrirtæki sem hafa verið í rekstrarvanda sem er algerlega óháður COVID veirunni geta ekki haft væntingar um að aðgerðir sem ætlaðar eru sem viðbragð við útbreiðslu veirunnar taki til að leysa einhvern fortíðarvanda,“ sagði Bjarni

Kröfur um lágmarks eigið fé

Samkvæmt frumvarpi sem lagt hefur verið fram á Alþingi verður fyrirtækjum sem glíma við tímabundna rekstrarörðugleika vegna tekjufalls heimilt að frestun þrívegis greiðslum skatts í staðgreiðslu af launum frá 1. apríl til 1. desember á þessu ári. Í kynningu ríkisstjórnarinnar í gær kom fram að fyrirtæki fengju heimild til að að dreifa greiðslum frá janúar til september 2021. Stjórnvöld áætla að þetta geti bætt lausafjárstöðu fyrirtækja um 75 milljarða króna.

Til að uppfylla skilyrðin þurfa fyrirtæki að hafa orðið fyrir því að rekstrartekjur dragist saman a.m.k. þriðjung yfir heilan mánuð samanborið við sama mánuð árið 2019. Hafi atvinnurekstur staðið í tvö ár eða skemur er heimilt að miða við meðaltekjur síðastliðinna 12 mánaða.

Hins vegar segir í frumvarpinu að ekki sé um rekstrarörðugleika að ræða, þótt tekjufall komi til, ef launagreiðandi eigi nægt eigið fé til að sækja sér lánafyrirgreiðslu á almennum markaði eða eigi nægt handbært fé til að standa straum af útgjöldum til rekstrar þegar þau falla í gjalddaga. Það sama eigi við ef arði er úthlutað á árinu 2020 eða ef úttekt eigenda innan ársins 2020 fer umfram reiknað endurgjald þeirra til þess tíma.

Þá eigi greiðslufrestur ekki við ef fyrirtæki hafi átt við varanlega rekstrarörðugleika að stríða fyrir upphaf ársins 2020. Samkvæmt frumvarpinu teljast varanlegir rekstrarörðugleikar vera til staðar í þessu sambandi ef eigið fé var neikvætt í árslok 2019 um meira en helming innborgaðs hlutafjár, stofnfjár eða framlags eiganda.

Þá mega fyrirtæki ekki hafa verið í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga 31. desember 2019 og að hann hafi staðið skil á skattframtölum ásamt lögboðnum fylgigögnum til Skattsins.

Komi í ljós að fyrirtæki sem frestað hafi greiðslu skatta uppfylli ekki skilyrðin eigi þau að sæta álagi til viðbótar skattskuld sína.

Ríkisábyrgð gildi til 18 mánaða

Þá eru ýmis skilyrði fyrir því að Seðlabankinn gangist í ábyrgðir fyrir helming lána viðskiptabanka til fyrirtækja í vanda vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Ábyrgðirnar geta að hámarki numið 35 milljörðum króna sem þýðir að hámarki geti bankarnir lána út 70 milljarða króna vegna þeirra. Átta skilyrði eru tilgreind í fjáraukalögum sem lögð hafa verið fram á Alþingi.

  1. Ábyrgðir taki eingöngu til nýrra lána til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir 40% tekjumissi eða meira milli ára. Jafnframt er það forsenda að vandi fyrirtækisins sé ófyrirséður og að það geti með viðeigandi aðstoð orðið rekstrarfært þegar dregur úr áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru.
  2. Lánastofnanir grípi fyrst til hefðbundinna úrræða sem þær ráða yfir til aðstoðar fyrirtækjum og að lán með ábyrgðum verði því aðeins veitt að hefðbundin úrræði dugi ekki til.
  3. Kveðið verður á um hámarkslán til einstakra fyrirtækja. Gert er ráð fyrir að þau geti að hámarki numið tvöföldum árslaunakostnaði viðkomandi fyrirtækis á næstliðnu ári.
  4. Við ákvörðun kjara lánveitingar taki lánastofnun tillit til þess að hún ber aðeins hluta áhættu við veitingu lánsins.
  5. Ábyrgðin verður afturkölluð að 18 mánuðum liðnum.
  6. Lán takmarkist við fyrirtæki þar sem launakostnaður var a.m.k. 25% af heildarútgjöldum undangengins árs.
  7. Heimilt verði að takmarka hagnýtingu lánsins þannig að það verði t.d. eingöngu nýtt til greiðslu launa, rekstraraðfanga og húsaleigu.
  8. Umfangi veittra ábyrgða verði skipt með eftirfarandi hætti: (a) fyrirtæki með færri en 20 starfsmenn; (b) fyrirtæki með 20–100 starfsmenn; (c) fyrirtæki með 100–250 starfsmenn; og (d) fyrirtæki með fleiri en 250 starfsmenn.