*

föstudagur, 25. september 2020
Innlent 27. maí 2020 11:11

Of ströng skilyrði fyrir hlutabótum

Viðskiptaráð telur að ný skilyrði hlutabótaleiðarinnar geti leitt til björgunar ólífvænlegra fyrirtækja og ójafnræðis.

Ritstjórn
Viðskiptaráð Íslands er til húsa í Húsi atvinnulífsins við Borgartún.
Haraldur Guðjónsson

Ströng skilyrði hlutabótaleiðarinnar gengur gegn þeirri áherslu að fyrirtæki komist í gegnum tímabundna erfiðleika vegna Covid að því er Viðskiptaráð Íslands segir í umsögn við nýtt lagafrumvarp sem liggur í samráðsgátt stjórnvalda.

Viðskiptaráð gagnrýnir ný skilyrði líkt og hækkun starfshlutafalls í 50% og engar arðgreiðslur fyrirtækja til þriggja ára. Einnig varar það við því að hlutabótaleiðin stuðli að því að bjarga ólífvænlegum fyrirtækjum í stað þess að veita jafnan stuðning til fyrirtækja landsins.

Skilyrði hlutabótaleiðarinnar hefðu átt að vera skýrari

Lærdómurinn hvað varðar hlutabótaleiðina er að stjórnvöld hefðu þurft að veita ríkari og skýrari leiðbeiningar um markmið úrræðisins og hverjum því var ætlað. Í umsögninni er sagt óheppilegt að stjórnvöld hafi lyst vanþóknun á hvernig úrræðið hefur verið nýtt á sama tíma og því fylgdu mjög almenn og óljós skilyrði ásamt misvísandi skilaboðum.

Ummæli félags- og barnamálaráðherra um nýtingu úrræðisins er einnig sögð athyglisverð í þessu samhengi þar sem fyrirtæki hafi bókstaflega verið hvött til að nýta úrræðið: „Hugsunin er auðvitað sú að hvetja fyrirtæki til þess að nýta sér þessa heimild vegna þess að við erum öll í þessu saman.“

Ráðningarsambönd gætu glatast

Með frumvarpinu er úrræðið framlengt en um leið þrengt þannig að það nær eingöngu til 50% starfshlutfalls frá og með 1. júlí. Með svo mikla hækkun starfshlutfalls á sama tíma og stjórnvöld leggja fram frumvarp um greiðslu uppsagnarfresta má ætla að með þessu muni fjöldi ráðningarsambanda glatast, t.d. þar sem tekjur eru enn litlar sem engar.

Þar sem samkomubanni er smám saman aflétt og líklegra en ekki að ferðaþjónustu muni taka nokkurn tíma að komast á skrið má færa rök fyrir því að sú sársaukafulla aðlögun sé engu að síður nauðsynleg. Þróun faraldursins og afleiðinga hans er þó enn óljós og því er von ráðsins að hlutfallið verði aftur lækkað niður í 25% ef aðstæður kalla á það.

Gagnrýna þröng skilyrði um arðgreiðslur

Þá er lagt bann við nýtingu úrræðisins ef greiddur er út arður, keypt eru eigin bréf, greitt af víkjandi lánum fyrir gjalddaga o.s.frv. í þrjú ár. Færa megi að mati ráðsins rök fyrir einhverskonar skilyrðum sem þessum en staldra þarf við útfærsluna og lengdina.

Með því að láta það skilyrði gilda í þrjú ár sé gengið of langt. Arðgreiðslur eru jafn eðlilegur hluti fyrirtækjarekstarar og að greiða vexti af lánum og alls óvíst hvernig forsendur fyrir þeim munu þróast á næstu árum, þó að árið 2020 verði vafalítið þungt.

Mikil og hárrétt áhersla hefur verið lögð á að stuðningur stjórnvalda snúi að lífvænlegum fyrirtækjum eftir sem fremsta megni, en hér er beinlínis gengið gegn þeirri áherslu því það liggur í hlutarins eðli að fyrirtæki sem hafa getu til þess að greiða arð eru lífvænlegri en önnur. Í þessu ljósi leggur Viðskiptaráð til að skilyrðið nái einungis til takmarkana á arðgreiðslum vegna yfirstandandi rekstrarárs.

Neyðarúrræði eiga ekki að ganga gegn heilbrigðri samkeppni

Þó að spurningarnar hér að framan séu mikilvægar hefur lítil umræða átt sér stað um hvort og hvernig ríkið eigi að vinna að jafnri stöðu fyrirtækja, að mati Viðskiptaráðs. Ríkið eigi fyrst og fremst að skapa fyrirtækjum jafnan grundvöll til að skapa störf og verðmæti en það sé svo á höndum fyrirtækjanna sjálfra að reksturinn standi undir sér – í því felst samkeppnin.

Við sérstakar aðstæður eins og nú koma sértæk úrræði til greina en þau úrræði mega þó aldrei ganga gegn heilbrigðri samkeppni og hamla nauðsynlegri aðlögun.

„Hlutabótaleiðin er ekki endilega farsælasta leiðin til þess þegar fram í sækir og á að líta á hana sem neyðarúrræði sem grípa má til, sérstaklega ef herða þarf aftur á sóttvarnaraðgerðum. Aftur á móti gætu örvun fjárfestingar til framtíðar, skattabreytingar, breytingar á regluverki og fleira náð slíkum markmiðum,“ segir í umsögn Viðskiptaráðs.