Frumútboð á hlutabréfum í kínverska búnaðarbankanum, Agricultural Bank of China, gæti orðið það verðmætasta sem haldið hefur verið. Í grein Wall Street Journal um málið segir að útboðið reyni á trú fjárfesta á kínverska hagkerfinu.

Ef útboðið gengur eins vel og bjartsýnustu menn vona er búist við að hlutabréfin muni seljast fyrir um 23 milljarða bandaríkjadala, jafngildi nærri 3000 milljarða íslenskra króna, sem yrði hæsta upphæð sem nokkurt fyrirtæki hefur aflað sér með frumútboði. Stærsti eigandi bankans er kínverska ríkið.

Áhyggjur fjárfesta hafa sett strik í reikninginn og verð stofnfjárbréfanna lækkaði nokkuð á síðustu metrum útboðsins. Þrátt fyrir það hefur eftirspurn bréfanna haldist nokkuð mikil og sýnir að margir fjárfestar bera enn mikils trausts til kínverska hagkerfisins, að mati dálkahöfundar Wall Street Journal.

Stærstu frumútboð á þessu ári hafa öll verið í Asíu eða þróunarlöndunum. Á topp tíu lista yfir þau stærstu er aðeins eitt sem haldið var í Vestur-Evrópu og ekkert í Bandaríkjunum.