Actavis setur í dag nýtt lyf á Bandaríkjamarkað í kjölfar þess að félagið fékk í gær öll tilskilin leyfi frá lyfja- og heilbrigðiseftirliti Bandaríkjanna fyrir sölu lyfsins. Í samtali við Viðskiptablaðið í dag segir Halldór Kristmannsson talsmannður Actavis að dreifing og markaðssetning lyfsins hefjast tafarlaust nú þegar tilskilin leyfi liggja fyrir.

Að sögn Halldórs er um að ræða stærstu markaðssetningu Actavis vestanhafs í mjög langan tíma og miklar vonir eru bundnar við að lyfið verði í hópi þeirra söluhæsta á Bandaríkjamarkaði sem jafnframt er stærsti markaður félagsins, en þriðjungur af heildarsölu Actavis fer fram á Bandaríkjamarkaði.


Lyfið sem um ræðir er verkjalyf í formi forðaplásturs. Plásturinn er sterkt verkjalyf gagnast þeim sem þjást af langvinnum og krónískum verkjum og þarfnast stöðugrar ummönnunar. Plásturinn hefur þann eiginleika umfram hefðbundin verkjalyf að áhrif lyfsins dreifast jafnt út yfir lengri tíma. Bandaríska lyfjafyrirtækið Alza/Janssen á frumgerð lyfsins en auk Actavis hafa bandarísku lyfjafyrirtækin Mylan og Watson Pharmaceuticals sett samheitalyf frumgerðarinnar á markað í Bandaríkjum um þessar mundir. Alls verða því þrjú lyfjafyrirtæki um hituna á markaðinum fyrir forðaplástur gæddum þessum eiginleikum. Eftir miklu er að slægjast en á síðustu tólf mánuðum nam sala frumgerðar lyfsins alls 1,2 milljörðum Bandaríkjadala sem samsvarar til tæplega 78 milljarða íslenskra króna.

Til samanburðar nam sala Actavis í Bandaríkjunum á öðrum ársfjórðungi þessa árs 8,4 milljörðum króna.
Halldór segir forðaplásturinn góða viðbót við ört vaxandi lyfjasafn félagsins í Bandaríkjunum en um er að ræða fyrsta forðalyfið í plástursformi sem Actavis setur á markað. Um er að ræða níunda lyfið sem Actavis setur á Bandaríkjamarkað það sem af er þessu ári. Meðal þeirra lyfja sem sett hafa verið á markað vestanhafs á árinu er hjartalyfið Nifedipine, svefnlyfið Zolpidem Tartrate, krabbameinslyfið Ondansetron og sveppalyfið Terbinafine. "Það er ánægjulegt að ölfugt þróunarstarf Abrika sem við keyptum á síðasta ári er nú að skila sér en félagið sá um þróun lyfsins. Á næstu árum sjáum við góð tækifæri í þróun og markaðsetningu forðalyfja í Bandaríkjunum og í kjölfar kaupanna á Abrika höfum við fjárfesta mikið í þróun þeirra," segir Halldór..