Hlutabréf Avion Group hf. verða skráð á Aðallista Kauphallarinnar á morgun, 20 janúar. Skráning Avion Group er stærsta nýskráning félags í Kauphöllina en markaðsvirði félagsins eru tæpir 69 milljarðar króna við skráningu. Heildarfjöldi hluta í Avion Group hf. eru alls 1.793.599.135 að nafnverði.

Í frétt Kauphallarinnar kemur fram að Avion Group hf. er fjárfestingafélag á sviði flutningastarfssemi. Félagið byggir á traustum grunni sterkra fyrirtækja og hefur yfir að ráða öflugum flutningaflota í lofti, á láði sem og legi. Afkomusvið félagsins eru þrjú: Aviation Services, Shipping & Logistics og Charter & Leisure. Höfuðstöðvar félagsins eru á Íslandi og starfa um 4.500 manns hjá félaginu í öllum byggðum heimsálfum. Félagið var nýlega kosið annað framsæknasta fyrirtæki Evrópu.

Í lokuðu hlutafjárútboði félagsins í desember síðastliðnum lýstu fjárfestar yfir vilja til að kaupa hluti í félaginu fyrir ríflega 100 milljarða króna að söluvirði. Slegið var Íslandsmet í eftirspurn í útboðinu, en umframeftirspurnin eftir nýjum hlutum í félaginu var sextánföld. Seldir voru nýir hlutir að söluverðmæti 10 milljarðar króna á genginu 38,3 til fagfjárfesta.

Þann 30. september sl. námu heildareignir félagsins 1.580 m USD og eigið fé nam 459 m USD. Rekstrartekjur félagsins yfir 12 mánaða tímabil frá 1. nóv. - 31. okt. 2004/05 námu 1.830 m USD.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands sagði í tilkynningunni að Avion Group væri sannarlega ánægjuleg viðbót við markaðinn. "Við bjóðum Avion Group innilega velkomið í Kauphöll Íslands. Avion Group hefur náð miklum árangri í fjölþættri flutningastarfsemi á alþjóðavettvangi á undanförnum árum og við óskum því góðs gengis í framtíðinni."

Magnús Þorsteinsson, stjórnarformaður Avion Group sagði skráningu félagins vera mikilvægt skref í áframhaldandi vexti þess. "Trú fjárfesta á Avion Group er mikil. Nýir fjárfestar geta nú tekið þátt í áframhaldandi uppbyggingu félagsins."