SPRON hefur gengið frá samningi um stærsta sambankalán í sögu bankans fyrir samtals 200 milljónir evra til þriggja ára að því er kom fram í frétt félagsins.

Þar kemur fram að SPRON hlaut góðar viðtökur á alþjóðlegum sambankalánamarkaði og var mikil umframeftirspurn meðal fjárfesta. Upphaflega stóð til að taka 100 milljónir evra en vegna mikillar eftirspurnar hækkaði bankinn heildarfjárhæð lánsins í 200 milljónir evra. Alls tók 21 alþjóðlegur banki þátt í láninu.

Yfirumsjón með láninu höfðu BayernLB, DZ Bank AG, Fortis Bank, HSH Nordbank AG, Raiffeisen Zentralbank Österreich AG og Sumitomo Mitsui Banking Corporation.

Dótturfélög SPRON eru SPRON Verðbréf, SPRON Factoring, Netbankinn, Frjálsi Fjárfestingarbankinn og Curron. SPRON rekur 9 útibú á höfuðborgarsvæðinu. Hjá SPRON og dótturfélögum starfa um 250 manns.