Brautskráning frá Háskólanum í Reykjavík (HR) fór fram í dag en alls brautskráði HR 498 nemendur á þessu vori og hafa aldrei svo margir verið brautskráðir frá skólanum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá HR en umræddir nemendur útskrifast með 33 mismunandi prófgráður. Um 30% útskriftarnema útskrifast með meistaragráðu og hafa aldrei svo margir meistaranemar verið útskrifaðir frá skólanum áður.

Skipting útskriftarnema er sem hér segir:

  • 147 með meistaragráðu
  • 282 með bakkalárgráðu
  • 46 með diplómugráðu
  • 23 með frumgreinapróf

Í tilkynningu kemur fram að niðurstöður nýlegrar könnunar sem gerð var á meðal útskriftarnema HR sýna að þeim hefur gengið vel að fá vinnu að loknu námi. Af þeim sem hyggjast fara út á vinnumarkaðinn þegar að loknu námi, hafa tæplega 80% fengið atvinnu eða eru með atvinnutilboð.

Þá leiðir könnunin ennfremur í ljós að rúm 11% útskriftarnema hyggjast fara beint í frekara háskólanám.

Mikilvægi háskólamenntunar aldrei verið meira

Dr. Svafa Grönfeldt, rektor HR, gerði mikilvægi háskólamenntunar að umtalsefni í ræðu sinni til útskriftarnema. Hún sagði að tilkoma HR og fjölgun háskóla á Íslandi hefði verið gríðarlega mikil vítamínsprauta fyrir háskólamenntun Íslendinga. Þannig hefðu háskólanemar á Íslandi verið rúmlega 8.000 árið 1998, en 10 árum síðar voru þeir tæplega 18.000, eða rúmlega tvöfalt fleiri.

Svafa sagði þetta undirstrika mikilvægi þess að hér yrði áfram öflugt háskólasamfélag og að aldrei hefði verið mikilvægara en einmitt nú að hlúa að því og byggja það upp af metnaði og krafti. Vel menntuð þjóð ætti margfalt meiri möguleika á að vinna sig út úr því ölduróti sem alþjóðasamfélagið væri í um þessar mundir en þjóðir sem ekki gætu byggt á slíku ríkidæmi.