Stærsta verkfræðistofa landsins með alls 240 starfsmenn varð til um áramótin þegar Verkfræðistofa Guðmundar og Kristjáns - VGK hf. og verkfræðistofan Hönnun hf. voru sameinaðar undir nafninu VGK-Hönnun hf.

Framkvæmdastjórar nýja fyrirtækisins eru Eyjólfur Árni Rafnsson, sem verður ábyrgur fyrir innlendum verkefnum, og Runólfur Maack, sem ber ábyrgð á verkefnum fyrirtækisins erlendis segir í tilkynningu félagsins.

?Samlegðaráhrifin eru mikil og í krafti stærðarinnar getum við nú boðið viðskiptavinum fleiri og betri heildarlausnir þó traust, sveigjanleg og persónuleg þjónusta verði eftir sem áður aðalsmerki okkar, enda er kjörorð sameiningarferilsins samruni til sóknar,? segir Eyjólfur Árni Rafnsson, framkvæmdastjóri innlendra verkefna í tilkynningunni.

?Með þessu erum við að búa til öfluga sóknareiningu þar sem fyrst og fremst er byggt á því góða fólki sem starfað hefur hjá þessum fyrirtækjum og við teljum okkur nú vel í stakk búin til að keppa við bæði innlend og erlend ráðgjafafyrirtæki, bæði hérlendis og erlendis,? bætir Runólfur Maack, framkvæmdastjóri erlendra verkefna við.

Aðalskrifstofa VGK-Hönnunar er að Grensásvegi 1 í Reykjavík. Fyrst í stað verður fyrirtækið einnig til húsa að Laugavegi 178 en stefnt er að því að koma starfseminni í Reykjavík sem fyrst undir eitt þak. Starfsstöðvar fyrirtækisins úti á landi eru á sjö stöðum, á Akranesi, Akureyri, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Kirkjubæjarklaustri, Hvolsvelli og Selfossi.