Draumur Novators, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, um að eignast samheitalyfjafyrirtækið Actavis rættist í gær, aðeins einum degi áður en yfirtökutilboð Novators sem hljóðaði upp á 1,075 evrur á hlut rann út. Novator náði í gær að tryggja sér samþykki yfir 94% hluthafa Actavis. Þar með hefur myndast skylda hjá þeim hluthöfum sem eftir sitja til að selja Novator hlut sinn. Með þessu er stærsta yfirtaka íslensk viðskiptalífs í höfn eftir rúmlega tveggja mánaða fremur stormasama aðsiglingu.


Eins og kunnugt er lagði Novator fram óformlegt tilboð upp á 0,98 evrur í allt hlutafé Actavis þann tíunda maí síðastliðinn. Novator fann sig hinsvegar knúinn til að hækka tilboð sitt upp í 1,075 evrur á hlut eftir að hluthafar lýstu yfir mikilli óánægju með tilboðið sem ekki var talið endurspegla raunvirði félagsins.
Björgólfur Thor var ánægður í gær þegar Viðskiptablaðið náði tali af honum. "Þetta er verkefni sem hófst fyrir átta árum síðan og er nú loksins komið í land," sagði Björgólfur Thor en hann hefur tekið þátt í uppbyggingu Actavis undanfarin átta ár sem stjórnarformaður félagsins."Þetta er gríðarlega stór yfirtaka og það gleður okkur að vera komin í land með þetta stóra og metnaðarfulla verkefni," bætti hann við.


Yfirtakan, sem gefur að mati sérfræðinga vísbendingu um aukinn þroska íslenska hlutabréfamarkaðarins, mun koma til með að hafa víðtæk áhrif á fjölmörgum sviðum. Fyrir það fyrsta mun Actavis hverfa af markaði en frá því að Novator lagði fram óformlegt tilboð hefur það verið yfirlýst markmið Novators að taka Actavis af markaði. Afskráningin er í samræmi við áætlanir Novators um breytingar á félaginu. "Áhættan verður meiri á herðum þeirra sem ákvarðanirnar taka og félagið þarf að geta brugðist hratt við," sagði Björgólfur þegar tilboðið var fyrst lagt fram fyrir tveimur mánuðum síðan. "Við stefnum að afskráningu eins fljótt og hægt og á allra næstu dögum verður frekari tímasetning þess atburðar ákveðin á stjórnarfundi. Afskráning verður eins fljótt og auðið er," segir Björgólfur nú. Hann segir engar meiriháttar hallarbyltingar framundan fyrst um sinn. "Við munum nú setjast niður með stjórnendum Actavis, leggja upp rekstrarplön og skerpa á þeim áherslum sem fyrir eru. Við höfum alltaf lýst yfir ánægju með það stjórnendateymi sem fyrir er og við hlökkum til að styðja við bakið á þeim og taka þátt í frekari vexti félagsins undir þeirra stjórn," segir Björgólfur Thor.

(meira í Viðskiptablaðinu í dag)